Landsátakinu Syndum lauk 30. nóvember síðastliðinn en um er að ræða sameiginlegt átak Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Sundsambands Íslands, sem vilja með þessu hvetja landsmenn til meiri hreyfingar í gegnum sundið.
Sautján grunnskólar og fimm sundfélög og deildir tóku þátt í átakinu í ár. Nemendur og iðkendur sundfélaga sem voru í sundi í nóvember voru hvattir til að synda fyrir hreinu vatni, handa börnum sem búa við erfið skilyrði þar sem skortur er á hreinu vatni.
Að því loknu voru þrír vinningshafar dregnir og meðal þeirra var Stekkjaskóli á Selfossi. Stekkjaskóli fær viðurkenningu frá UNICEF fyrir að hafa gefið 100.000 vatnshreinsitöflur, sem geta hreinsað 500.000 lítra af hreinu vatni, sem samsvarar vatnsmagni í 25 metra sundlaug.
Alls komust 69 laugar á landinu á blað í óformlegri keppni um flesta skráða metra þátttakenda í landsátakinu. Á Suðurlandi var Sundhöll Selfoss með flesta metra, eða 480,12 km, Sundlaugin í Þorlákshöfn í 2. sæti með 263,25 km og Sundlaugin í Laugaskarði í Hveragerði í 3. sæti með 186,92 km.
Til þess að taka þátt í átakinu skráðu þátttakendur sig til leiks á heimasíðu Syndum og skráðu metrana sem þeir syntu. Samtals lögðu landsmenn um 31.271 km að baki, sem samsvarar tæplega 24 hringjum í kringum Ísland. Til samanburðar voru syntir 26.850 km á síðasta ári eða rúmlega 20 hringir í kringum Ísland.