Selfoss og FH skildu jöfn í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu þegar liðin mættust í Kaplakrika í kvöld. Þrátt fyrir stigið fór Selfoss niður í fallsæti því KR lagði Fylki á sama tíma og fór uppfyrir Selfoss
„Ég var mjög ánægður með það að sjá stelpurnar berjast fram í rauðan dauðann og finna Selfosshjartað aftur. Ég var líka virkilega ánægður með að við erum að skapa okkur fleiri færi en í síðustu leikjum og heilt yfir framfarir liðsins frá því í síðasta leik,“ sagði Guðjón Bjarni Hálfdánarson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Við erum búin að vera inni í síðustu fimm leikjum þó að úrslitin hafi ekki fallið með okkur. Núna komum við til baka eftir að hafa lent 1-0 undir og það sýnir ákveðinn karakter. Ég er mjög ánægður með það. Ég geri ráð fyrir því að þetta sé eitthvað sem stelpurnar koma til með að byggja ofan á,“ sagði Guðjón ennfremur. Hann bætti við að ef liðið ætlaði að halda sæti sínu í deildinni þyrfti það að vinna saman sem ein eining í síðustu þremur leikjunum.
„Við þurfum að finna baráttuna og löngunina til þess að vera áfram í deildinni. Við þurfum að sýna yfirvegun í færum til að koma boltanum yfir línuna. Það kemur til með að ráða úrslitum um það hvort við verðum hérna aftur 2017 eða ekki.“
Kaflaskiptir hálfleikir
Leikurinn var bragðdaufur í fyrri hálfleik og fátt um færi, en FH-ingar stjórnuðu leiknum og voru mikið með boltann.
Staðan var markalaus í hálfleik en Selfyssingar mættu mun sprækari inn í seinni hálfleikinn og áttu margar efnilegar sóknir.
Það dró þó ekki til tíðinda fyrr en á 71. mínútu að FH komst yfir með marki frá Melkorku Pétursdóttur eftir vandræðagang í vörn Selfoss.
Selfoss jafnaði metin á 82. mínútu eftir aukaspyrnu frá hægri kantinum. Boltinn barst fyrir markið þar sem Heiðdís Sigurjónsdóttir skallaði að marki, beint á Magdalenu Reimus sem lúrði við nærstöngina og stangaði boltann í netið.
Eftir jöfnunarmarkið opnaðist leikurinn nokkuð og bæði lið leituðu að sigurmarkinu. FH-ingar komust þó nær því en Chanté Sandiford, markvörður Selfoss, varði í tvígang meistaralega og bjargaði stigi fyrir Selfoss.
Eftir leiki kvöldsins hefur botnbaráttan heldur betur harðnað, en fimm lið eru í fallhættu. FH er í 6. sæti með 14 stig, þar á eftir kemur Fylkir með 13 stig og KR með 12 stig. Selfoss er í 9. sæti með 11 stig og ÍA á botninum með 8 stig.