Stephanie Ósk bætti Íslandsmetið í hástökki

Stephanie Ósk Ingvarsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stephanie Ósk Ingvarsdóttir, Umf. Kötlu, bætti Íslandsmetið í hástökki 12 ára stúlkna á Sumarmóti Umf. Þórs og Umf. Kötlu sem fram fór í Þorlákshöfn síðastliðinn laugardag.

Stephanie Ósk sigraði í hástökkinu með stökk upp á 1,57 m og bætti hún þar með Íslandsmetið um 1 sm. Á Meistaramóti Íslands 11-14 ára fyrr í sumar jafnaði Stephanie Ósk gamla metið, sem var 1,56 sm í eigu ÍR-ingsins Heklu Rúnar Ámundadóttur.

Stephanie Ósk var sigursæl á mótinu í Þorlákshöfn en hún sigraði einnig í 60 m hlaupi, langstökki, þrístökki og kúluvarpi.

Veigar Þór Víðisson, Íþf. Garpi, lét sömuleiðis til sín taka á mótinu en hann sigraði í sex greinum; 100 m hlaupi, hástökki, langstökki, þrístökki, kúluvarpi og spjótkasti.

Eitt HSK met var slegið á mótinu en Vésteinn Loftsson, Umf. Hrunamanna, kastaði 2 kg kúlu 10,16 m og bætti þar með tólf ára gamalt met Ívars Mána Garðarssonar um 19 sm.

Á mótinu var keppt í aldursflokkunum 11-12 ára og 13-14 ára en einnig kepptu 10 ára og yngri í fjórum greinum.

Fyrri greinKvöldstund full af dulúð og harmi
Næsta greinAuknar kröfur um úrbætur í Efstadal II