Sterkir keppendur á MÍ 15-22 ára á Selfossi

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, Evrópumeistari í 100 metra hlaupi í flokki stúlkna 16-17 ára og Ólympíumeistari ungmenna í 200 metra hlaupi síðasta sumar. Ljósmynd/FRÍ

Meistaramót Íslands 15-22 ára í frjálsum íþróttum fer fram um næstu helgi á Selfossvelli. Mótið hefst klukkan 10 báða dagana.

Alls eru 212 keppendur frá 25 félögum víðs vegar um landið skráðir til keppni. Sigurliðið í fyrra í samanlagðri stigakeppni allra flokka var ÍR. Búast má við sterkri og spennandi keppni í ár þar sem á meðal keppenda er hluti af fremsta frjálsíþróttafólki Íslands og keppendur af EM, HM og NM í flokki unglinga frá því síðasta sumar.

Meðal keppenda eru Kristján Viggó Sigfinnson, Ármanni, Íslandsmeistari í hástökki, Irma Gunnarsdóttir, Breiðabliki, Norðurlandameistari U23 í sjöþraut og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR, Evrópumeistari í 100 metra hlaupi í flokki stúlkna 16-17 ára og Ólympíumeistari ungmenna í 200 metra hlaupi síðasta sumar.

Hin 16 ára gamla Elísabet Rut Rúnarsdóttir, ÍR, mætir einnig til leiks en hún bætti nýverið Íslandsmetið í sleggjukasti og er ein sú besta í heiminum í sleggjukasti undir 18 ára. Aðrir sterkir ÍR-ingar eru Dagbjartur Daði Jónsson, gullverðlaunahafi í spjótkasti frá Smáþjóðaleikunum, Tiana Ósk Whitworth, Íslandsmeistari í 100 metra hlaupi kvenna og Thelma Lind Kristjánsdóttir, ÍR, Íslandsmethafi í kringlukasti.

HSK/Selfoss sendir einnig öflugan hóp keppenda til leiks. Þar á meðal eru Dagur Fannar Einarsson, sem er skráður í átta greinar auk boðhlaupa en hann er nýkominn heim af Norðurlandameistaramótinu í fjölþrautum þar sem hann bætti HSK metið í tugþraut 16-17 ára. Hástökkvarinn Eva María Baldursdóttir mætir einnig til leiks en hún stökk 1,75 m á dögunum sem er besta afrek íslenskrar frjálsíþróttakonu það sem af er sumri. Eva María keppir auk þess í kúluvarpi og sleggjukasti.

Tímaseðil og keppendalista má sjá hér.

Fyrri greinBlóm í bæ um næstu helgi
Næsta greinÆgismenn á toppinn