Þrátt fyrir góðan endasprett tapaði Hamar stórt þegar liðið heimsótti úrvalsdeildarlið Snæfells í Lengjubikar karla í körfubolta í Stykkishólmi í kvöld, 97-75.
Hvergerðingar voru ekki með á nótunum í upphafi leiks og Snæfell komst í 17-5 í 1. leikhluta en staðan að honum loknum var 19-8. Snæfell jók muninn enn frekar í 2. leikhluta og staðan var 44-28 í hálfleik.
Sterkir Snæfellingar gerðu svo endanlega út um leikinn í 3. leikhluta þar sem þeir léku á alls oddi og skoruðu 35 stig gegn 18 stigum Hamars og þá var staðan orðin 79-46.
Hamar minnkaði muninn um tíu stig í upphafi 4. leikhluta en náðu ekki að brúa bilið frekar fyrr en á lokamínútunni en munurinn var þá tuttugu stig, 95-75, og Snæfell skoraði síðustu körfu leiksins.
Örn Sigurðarson var atkvæðamestur í liði Hamars með 18 stig og 12 fráköst. Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði 17, Halldór Gunnar Jónsson 16, Jerry Lewis Hollis 9, Hjalti Valur Þorsteinsson 6, Ragnar Á. Nathanaelsson 5 og þeir Bjartmar Halldórsson og Eyþór Heimisson skoruðu 2 stig hvor.