Þór Þorlákshöfn vann sterkan sigur á Keflavík á heimavelli í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Keflvíkingar eru að daðra við toppsætið í deildinni á meðan Þórsarar eru um miðja deild.
Leikurinn var jafn allan tímann en á síðustu fjórum mínútunum tóku Þórsarar af skarið á meðan Keflavík horfði á. Staðan var 41-42 í hálfleik.
Þórsarar náðu 10-2 áhlaupi á lokamínútunum þar sem Halldór Garðar Hermannsson skoraði sjö stig í röð, setti niður risastóran þrist og var ískaldur í fjórum vítaskotum. Þór breytti þar stöðunni úr 76-75 í 86-77 og sigraði að lokum 89-81.
Þór er nú í 7. sæti deildarinnar með 10 stig en Keflavík í 2. sæti með 14 stig.
Tölfræði Þórs: Halldór Garðar Hermannsson 34/5 stoðsendingar, Vincent Terrence Bailey 20/9 fráköst, Dino Butorac 12, Marko Bakovic 10/7 fráköst, Ragnar Örn Bragason 8, Emil Karel Einarsson 5, Styrmir Snær Þrastarson 0.