Selfoss vann sterkan sigur á Víkingum í 1. deild karla í handbolta í Safamýrinni í kvöld, 26-31.
Leikurinn var jafn á upphafsmínútunum en Víkingur skoraði þrjú mörk í röð og breytti stöðunni í 8-5. Selfyssingar náðu vopnum sínum á ný, jöfnuðu 9-9 og komust yfir áður en hálfleiksflautan gall, 13-15.
Selfyssingar voru skrefinu á undan framan af seinni hálfleik og þeir náðu fimm marka forskoti um hann miðjan, 19-24. Eftir leikurinn var nokkuð auðveldur eftir það, Víkingur reyndi að auka spennustigið með því að minnka muninn í tvö mörk þegar rúmar tvær mínútur voru eftir en Selfoss kláraði af krafti og sigraði 26-31.
Guðjón Baldur Ómarsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Hannes Höskuldsson skoraði 6, Tryggvi Sigurberg Traustason 4, Sölvi Svavarsson, Álvaro Mallols, Jónas Karl Gunnlaugsson og Hákon Garri Gestsson 2 og þeir Elvar Elí Hallgrímsson, Patrekur Þór Öfjörð, Valdimar Örn Ingvarsson, Vilhelm Freyr Steindórsson, Jason Dagur Þórisson og markvörðurinn Alexander Hrafnkelsson skoruðu allir 1 mark. Alexander varði 8 skot í markinu og Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 3 skot.
Selfyssingar eru nú í 3. sæti deildarinnar með 8 stig en Víkingur er í 5. sæti með 6 stig.