Stokkseyringar unnu góðan útisigur á Reyni Hellissandi í 5. deild karla í knattspyrnu í gær. Lokatölur urðu 1-3.
Stokkseyrarliðið var með fámennan hóp í leiknum og eini varamaður liðsins naut Sælunnar á bekknum allan tímann. Það kom ekki að sök því Stokkseyringar mættu sprækir í leikinn og Þórhallur Aron Másson kom þeim yfir strax á 5. mínútu. Heimamenn jöfnuðu á 14. mínútu en Gunnar Flosi Grétarsson kom Stokkseyri aftur yfir fimm mínútum síðar og staðan var 1-2 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var markalaus allt fram á lokamínútuna að Þórhallur Aron skoraði aftur og tryggði Stokkseyri 1-3 sigur.
Tvær umferðir eru eftir í riðlakeppni 5. deildarinnar og er síðasti heimaleikur Stokkseyringa næstkomandi mánudag gegn Höfnum. Staðan í A-riðlinum er þannig að Stokkseyri er í 4. sæti með 22 stig en RB og Úlfarnir eru í efstu sætunum og hafa þegar tryggt sér sæti í úrslitakeppninni.