Sterkur útisigur Þórsara

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs, les sínum mönnum pistilinn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn vann öruggan útisigur á stjörnumprýddu liði Vals í kvöld í úrvalsdeild karla í körfubolta. Lokatölur urðu 67-86.

Valsmenn höfðu undirtökin í 1. leikhluta en Þórsarar minnkuðu muninn í 2. leikhluta og staðan var 42-39 í hálfleik.

Í seinni hálfleik var hins vegar engin spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda. Þór gerði 16-1 áhlaup um miðjan 3. leikhluta og breytti stöðunni í 50-57. Ölfusingar gáfu ekkert eftir á lokakaflanum og uppskáru sanngjarnan sigur.

Larry Thomas var stigahæstur Þórsara með 22 stig, Adomas Drungilas var firnasterkur með 18 stig og Styrmir Snær Þrastarson skoraði 16 og sendi 6 stoðsendingar.

Þórsarar eru í 4. sæti deildarinnar með 10 stig en Valur er með 6 stig í 9. sæti.

Tölfræði Þórs: Larry Thomas 22, Adomas Drungilas 18/6 fráköst/5 stoðsendingar, Styrmir Snær Þrastarson 16/7 fráköst/6 stoðsendingar, Callum Lawson 9/9 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 8, Emil Karel Einarsson 6/10 fráköst, Ragnar Örn Bragason 3, Davíð Arnar Ágústsson 2/4 fráköst, Ingimundur Orri Jóhannsson 2.

Fyrri grein„Uppbyggingin á Selfossi algjörlega stórkostleg“
Næsta greinÞað er aldrei rétt að segja „víst að“