Hamar gerði 1-1 jafntefli við Stálúlf í 4. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi og KFR tapaði naumlega fyrir Ými eftir að hafa verið manni færri nánast allan leikinn.
Hamar fékk Stál-úlf í heimsókn á Grýluvöll og þar komust gestirnir yfir á 18. mínútu. Fimmtán mínútum síðar jafnaði Örlaugur Magnússon metin fyrir Hamar og þar við sat þrátt fyrir að bæði lið hafi fengið færi á að knýja fram sigur.
KFR sótti Ými heim á Versalavöll og þar fékk Przemyslaw Bielawski að líta rauða spjaldið strax á 6. mínútu. Rangæingar héldu hreinu í fyrri hálfleik en á 2. mínútu seinni hálfleiks fengu Ýmismenn aukaspyrnu sem þeir skoruðu úr. Tíu mínútum síðar jafnaði Ævar Már VIktorsson fyrir KFR og allt stefndi í að Rangæingar næðu að hanga á stiginu þar til Ýmir skoraði sigurmarkið í uppbótartíma leiksins. Lokatölur 2-1.
Hamar er í 2. sæti A-riðils með 7 stig en KFR er í 5. sætinu með 3 stig.