Selfoss tapaði fyrir Stjörnunni í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum umspilsins um sæti í úrvalsdeild karla í handbolta. Liðin mættust í Mýrinni í Garðabæ í kvöld þar sem heimamenn sigruðu 31-27.
Leikurinn var jafn og spennandi en Stjörnumenn voru yfir í hálfleik, 15-12. Selfyssingar jöfnuðu 17-17 í síðari hálfleik en eftir það var Stjarnan hálfu skrefi á undan. Munurinn var eitt mark þegar fimm mínútur voru eftir, 27-26, en Stjörnumenn voru sterkari á lokakaflanum.
Einar Sverrisson, Andri Hrafn Hallsson og Andri Már Sveinsson skoruðu allir 5 mörk fyrir Selfoss, Hörður Másson, Ómar Ingi Magnússon og Sverrir Pálsson skoruðu allir 3 mörk, Atli Hjörvar Einarsson 2 og Atli Kristinsson 1.
Næsti leikur liðanna verður á Selfossi á laugardaginn kl. 16 og þar þurfa Selfyssingar að sigra til þess að knýja fram oddaleik í Mýrinni næsta þriðjudagskvöld.