Stjarnan reyndist sterkari

Kvennalið Selfoss fékk Stjörnuna í heimsókn í Olís-deildinni í handbolta í kvöld. Stjörnuliðið hafði undirtökin allan tímann og sigraði að lokum 19-26.

Selfossliðið sýndi hörkubaráttu í leiknum og átti góða spretti inn á milli en Stjörnukonur voru sterkari stærstan hluta leiksins og leiddu í hálfleik, 10-13. Stjarnan jók forskotið í síðari hálfleik og vann að lokum sjö marka sigur.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 6 mörk, Þuríður Guðjónsdóttir skoraði 4, Helga Rún Einarsdóttir 3, Hildur Øder Einarsdóttir og Carmen Palamariu 2 og þær Margrét Katrín Jónsdóttir og Harpa Sólveig Brynjarsdóttir skoruðu sitt markið hvor.

Áslaug Ýr Bragadóttir varði 13 skot í marki Selfoss og var með 41% markvörslu og Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 6 skot og var með 46% markvörslu.

Selfoss er í 8. sæti deildarinnar með 11 stig en Stjarnan í 3. sæti með 22 stig.

Fyrri greinÚtskriftarsýning í Hörpu
Næsta greinSigríður Birna ráðin á Krakkaborg