Selfyssingar töpuðu fyrir Stjörnunni þegar liðin mættust í Garðabænum í kvöld í Pepsi-deild karla. Lokatölur 3-2.
Leikurinn byrjaði vel fyrir Selfyssinga þegar Viktor Unnar Illugason átti sendingu inn á Jón Daða Böðvarsson. Rangstöðutaktík Stjörnunnar mistókst og Jón var á auðum sjó og skoraði.
Stjarnan átti næsta leik en Ellert Hreinsson jafnaði eftir að Selfyssingum mistókst að hreinsa frá marki og staðan orðin 1-1 eftir níu mínútur.
Á 12. mínútu var fyrirliðinn Stefán Ragnar Guðlaugsson borinn af velli með bæði hné og ökklameiðsli og Kjartan Sigurðsson tók hans stað í vörninni. Þremur mínútum síðar sóttu Stjörnumenn stíft að marki Selfoss. Boltinn barst til Atla Jóhannssonar fyrir utan vítateiginn og Atli hamraði honum framhjá Jóhanni Ólafi, sem sá boltann seint og fékk ekki rönd við reist.
Stjörnumenn fengu góð færi eftir þetta en tókst ekki að skora. Jóhann Ólafur varði vel á köflum og Martin Dohlsten varði einu sinni á línu.
Undir lok fyrri hálfleiks varð umdeilt atvik þegar Atli Jóhannsson braut á Jóni Daða sem geystist fram völlinn í skyndisókn. Dómari leiksins sleppti því að spjalda Atla sem hefði þá fengið sitt annað gula spjald. Lítið samræmi í dómgæslunni því skömmu áður höfðu bæði Atli og Martin Dohlsten fengið gult fyrir áþekk brot.
Staðan var 2-1 í hálfleik og Stjörnumenn áttu fyrsta hættulega færið í síðari hálfleik en boltinn söng í stönginni eftir aðeins mínútu leik. Eftir það voru Selfyssingar sterkari aðilinn í leiknum þó að færin hafi ekki verið mörg. Halldór Orri Björnsson virtist svo ætla að gera út um leikinn þegar hann slapp í gegn og skoraði á 76. mínútu og kom Stjörnunni í 3-1. Þremur mínútum síðar minnkaði Kjartan Sigurðsson muninn fyrir Selfoss með fínu skallamarki eftir aukaspyrnu Jean Stephane YaoYao. Viðar Kjartansson fiskaði aukaspyrnuna en hann kom inná á 76. mínútu og frískaði nokkuð upp á sóknarleik Selfoss. Viðar átti síðasta færi leiksins en Selfoss reyndi allt hvað af tók að jafna á síðustu mínútunum.