Róðurinn þyngist enn hjá Selfyssingum í botnsæti Olísdeildar karla í handbolta en liðið tapaði í kvöld fyrir Stjörnunni á útivelli, 24-19.
Selfoss skoraði tvö fyrstu mörk leiksins en Stjarnan jafnaði 7-7 þegar fimmtán mínútur voru liðnar. Leikurinn var í járnum eftir það en staðan var 11-11 í hálfleik.
Jafnræði var með liðunum fyrstu tíu mínúturnar í seinni hálfleik en þá tóku Stjörnumenn leikinn í sínar hendur og breyttu stöðunni á skömmum tíma úr 15-15 í 19-15. Selfoss átti engin svör við góðum varnarleik Stjörnunnar.
Sveinn Andri Sveinsson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk, Sölvi Svavarsson skoraði 4, Hans Jörgen Ólafsson 3, Einar Sverrisson 3/2 og þeir Richard Sæþór Sigurðsson, Tryggvi Sigurberg Traustason og Gunnar Kári Bragason skoruðu allir 1 mar.
Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 9 skot í marki Selfoss og Vilius Rasimas varði 3/2.
Selfoss er með 8 stig í botnsætinu þegar þrjár umferðir eru eftir en þar fyrir ofan eru HK með 9 stig og Víkingur með 10 stig og Víkingar eiga leik til góða.