Selfyssingar fóru langt með að bjarga sér frá falli úr 1. deild karla í knattspyrnu í dag með því að leggja Gróttu örugglega að velli, 2-0, á JÁVERK-vellinum.
„Við vorum mun betri og stjórnuðum leiknum frá A til Ö. Þeir sköpuðu sér ekki mikið og ég hafði mjög lítið að gera í dag,“ sagði Vignir Jóhannesson, markvörður og fyrirliði Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Það kom ekki annað til greina en að taka þrjú stig í dag. Færin okkar voru kannski ekki mjög mörg en bæði mörkin voru mjög flott og við kláruðum þetta sannfærandi,“ sagði Vignir og bætti við að þó sigurinn hefði verið mikilvægur þá væri liðið ekki sloppið við fall.
„Nei, þetta er alls ekki komið hjá okkur þó að við höfum unnið þennan leik. Það eru tveir leikir eftir og við þurfum að gefa allt í þá og taka sex stig heim.“
Liðin voru að spila fyrir lífi sínu í deildinni, sátu fyrir leikinn í 10. og 11. sæti og þurftu bæði nauðsynlega á þremur stigum að halda.
Leikurinn byrjaði fjörlega og Gróttumenn virtust ætla að mæta grimmir til leiks. Þeir fengu gott færi strax á 1. mínútu, skot sem fór framhjá, en síðan ekki söguna meir.
Elton Barros átti skalla í stöngina á marki Gróttu á 5. mínútu og í kjölfarið tóku Selfyssingar leikinn yfir. Grótta fékk ekki færi en Selfoss var meira með boltann og átti nokkrar álitlegar sóknir.
Það var svo á 37. mínútu að Selfoss tók verðskuldað forystuna, en Elton Barros skallaði þá hornspyrnu Inga Rafns Ingibergssonar í netið. 1-0 í hálfleik.
Selfyssingar réðu lögum og lofum í síðari hálfleik og það var ekki að sjá að neitt væri í húfi hjá Gróttu sem ógnaði lítið. Á síðustu tíu mínútunum færðu gestirnir sig þó framar á völlinn en fengu engin færi. Á 89. mínútu innsiglaði Haukur Ingi Gunnarsson svo 2-0 sigur Selfoss með góðu skoti fyrir utan vítateig.
Þegar tvær umferðir eru eftir af deildinni og sex stig í pottinum er Selfoss í 10. sæti með 20 stig en Grótta situr ennþá í fallsæti með 15 stig, fyrir ofan BÍ/Bolungarvík sem er fallið.