Hamar/Þór vann góðan sigur á Stjörnunni í úrvalsdeild kvenna í körfubolta á útivelli í kvöld. Lokakaflinn var æsispennandi en Hamar/Þór sigraði að lokum 82-84.
Stjörnukonur byrjuðu betur og komust í 11-3 en Hamar/Þór lokaði 1. leikhluta vel og staðan að honum loknum var 20-23. Annar leikhluti var í járnum en Hamar náði 11-3 áhlaupi undir lok hans þannig að staðan var 39-47 í hálfleik.
Þær sunnlensku höfðu góð tök á leiknum lengst af seinni hálfleiknum og héldu sínu forskoti. Þær höfðu tólf stiga forystu í upphafi 4. leikhluta en þá tóku Stjörnukonur við sér, minnkuðu muninn jafnt og þétt og jöfnuðu 82-82 á lokaandartökunum.
Hamar/Þór tók leikhlé með 5,2 sekúndur á klukkunni. Sá tími dugði til að koma boltanum á Hana Ivanusa undir körfunni, Stjörnukonur réðu ekkert við Hana og hún skoraði sigurkörfuna af miklu harðfylgi þegar 1,1 sekúnda lifði leiks.
Abby Beeman var stigahæst hjá Hamri/Þór með 28 stig og 12 fráköst og Hana Ivanusa skoraði 20 stig og tók 9 fráköst.
Hamar er í 3. sæti deildarinnar með 6 stig eins og Haukar og Keflavík sem eru fyrir ofan en eiga leik til góða.
Stjarnan-Hamar/Þór 82-84 (20-23, 19-24, 22-22, 21-15)
Tölfræði Hamars/Þórs: Abby Claire Beeman 28/12 fráköst/5 stoðsendingar/6 stolnir, Hana Ivanusa 20/9 fráköst, Teresa Da Silva 16, Anna Soffía Lárusdóttir 14/6 fráköst, Gígja Rut Gautadóttir 2/5 fráköst/6 stoðsendingar, Matilda Sóldís Svan Hjördísardóttir 2, Bergdís Anna Magnúsdóttir 2, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 2 fráköst/2 stoðsendingar.