Stokkseyri enn án stiga – Hasar á Hellissandi

Guðmundur Garðar Sigfússon sækir að marki Skautafélags Reykjavíkur í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyri tapaði fyrir Skautafélagi Reykjavíkur í 5. deild karla í knattspyrnu í dag en í gær gerðu Uppsveitir jafntefli við Reyni á Hellissandi.

Það var hvasst á Stokkseyri í dag og vindurinn spilaði vel inn í fyrsta markið í leik Stokkseyrar og SR en Trausti Rafn Björnsson varð fyrir því óláni að skalla boltann í eigið net af löngu færi á 31. mínútu. Það reyndist eina mark fyrri hálfleiks en SR bætti við tveimur mörkum á fyrstu fimm mínútum seinni hálfleiks og staðan orðin 0-3. Stokkseyringar áttu lokaorðið, Guðmundur Garðar Sigfússon klóraði í bakkann á 74. mínútu og leiknum lauk með 1-3 sigri SR.

Það var mikil dramatík á lokamínútunum í leik Reynis og Uppsveita á Hellissandi í gær. Leikurinn var markalaus allt þar til í uppbótartímanum. Uppsveitir léku manni færri megnið af seinni hálfleik eftir að Steinar Gunnbjörnsson hafði fengið að líta rauða spjaldið. Manni færri tókst Uppsveitum hins vegar að skora þegar komið var fram í uppbótartímann en Daníel Ben Daníelsson sendi boltann þá í netið. Tveimur mínútum síðar fékk leikmaður Reynis rauða spjaldið en hasarinn var ekki búinn því að á sjöttu mínútu uppbótartímans jöfnuðu Reynismenn og lokatölur leiksins urðu 1-1.

Staðan í B-riðli 5. deildar er þannig að Uppsveitir eru í 6. sæti með 7 stig en Stokkseyri er enn án stiga í 8. sætinu.

Fyrri greinEllefu iðkendur frá fimleikadeild Selfoss æfa fyrir EM
Næsta greinHjálmar Vilhelm með frábæran árangur á NM í tugþraut