Stokkseyri tapaði naumlega fyrir Létti í C-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í gærkvöldi en úrslitin réðust í uppbótartíma.
Leikurinn byrjaði mjög illa hjá Stokkseyringum og eftir aðeins fjórar mínútur var staðan orðin 2-0 fyrir Létti.
Stokkseyringar stilltu sig af eftir það og róðurinn léttist aðeins hjá þeim á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar Þórhallur Aron Másson breytti stöðunni í 2-1 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Baráttan hélt áfram í síðari hálfleik og á 62. mínútu jafnaði Örvar Hugason metin með marki úr vítaspyrnu. Allt stefndi í 2-2 jafntefli en í uppbótartímanum tókst Léttismönnum að knýja fram sigur og lokatölur urðu 3-2.
Svekkjandi niðurstaða fyrir Stokkseyringa sem sitja í 6. sæti riðilsins með 9 stig en Léttismenn lyftu sér upp í 4. sætið með 12 stig.