Stokkseyri lagði Afríku – KFR gerði jafntefli

Þórhallur Aron Másson, fyrirliði Stokkseyrar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyri og KFR léku bæði í B-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Stokkseyringar náðu sigri á útivelli en KFR gerði jafntefli heima.

Stokkseyri sótti botnlið Afríku heim á Leiknisvöllinn. Fyrri hálfleikur var markalaus en þegar tæpar fimmtán mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum komst Afríka yfir. Rúmum fimm mínútum síðar var staðan orðin 1-1 eftir að Afríkumenn höfðu skorað sjálfsmark. Þórhallur Aron Másson bjargaði svo andliti Stokkseyringa með því að skora sigurmarkið, 2-1, þegar níu mínútur voru til leiksloka.

KFR fékk Vatnaliljur í heimsókn á Hvolsvöll. Sigurður Skúli Benediktsson kom Rangæingum yfir á 21. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. Gestirnir jöfnuðu metin þegar rúmar fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og leiknum lauk með 1-1 jafntefli þrátt fyrir ágætar sóknir beggja liða.

Færið var kannski langsótt en nú er endanlega ljóst að KFR nær ekki sæti í úrslitakeppni 4. deildarinnar. Liðið hefur 23 stig í 4. sæti riðilsins. Stokkseyri er í 8. sæti með 13 stig.

Fyrri greinSofnuðu tvisvar á verðinum
Næsta greinÆgismenn þróttminni en gestirnir