Stokkseyri og Árborg með sigra

Arilíus Óskarsson skoraði mark Stokkseyringa. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyri og Árborg unnu sína leiki í 4. deild karla í knattspyrnu í dag. Stokkseyri heimsótti Snæfell í Stykkishólm en Árborg tók á móti KB á Selfossi.

Stokkseyringar voru sterkari aðilinn í Stykkishólmi en gekk illa að athafna sig upp við mark Snæfells. Það breytti ekki miklu að leikmaður Snæfells fékk rautt spjald á 40. mínútu og Stokkseyringar því manni fleiri í 50 mínútur. Í síðari hálfleik kom Arilíus Óskarsson Stokkseyringum til bjargar og skoraði eina mark leiksins. Lokatölur 1-0.

Það var hins vegar markaveisla á gervigrasinu á Selfossi þar sem Árborg tók á móti KB. Magnús Hilmar Viktorsson og Haukur Ingi Gunnarsson komu Árborg í 2-0 í fyrri hálfleik en gestirnir náðu að jafna fyrir leikhlé. Aðeins voru tvær mínútur liðnar af síðari hálfleik þegar Árni Páll Hafþórsson kom Árborg í 3-2 en KB-menn jöfnuðu jafnharðan. Árborgarar voru hins vegar sterkari á lokakaflanum og bættu við tveimur mörkum. Haukur Ingi skoraði aftur og fimmta mark Árborgar skapaði Guðmundur Garðar Sigfússon þegar hann sendi boltann fyrir markið og varnarmaður KB setti hann í eigið net. Lokatölur á Selfossi 5-3.

Stokkseyringar eru í 4. sæti B-riðils með 14 stig en Árborg er í 3. sæti D-riðils með 20 stig. 

Fyrri greinGul viðvörun á Suðurlandi
Næsta greinGuðjón Halldór sveitarlistamaður Rangárþings eystra