Stokkseyri og Hamar með heimasigra

Kristinn Ásgeir Þorbergsson skoraði þrennu fyrir Hamar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyri og Hamar unnu örugga heimasigra í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á meðan KFR fékk skell á útivelli.

Stokkseyringar unnu góðan heimasigur á Skautafélagi Reykjavíkur. Gestirnir skoruðu fyrsta mark leiksins og staðan var 0-1 í hálfleik en Stokkseyringar voru sterkari í seinni hálfleiknum. Gunnar Flosi Grétarsson jafnaði með góðu skallamarki og Stokkseyringar voru ekki hættir, því þeir stönguðu boltann í netið tvisvar í viðbót og þar var Jón Jökull Þráinsson á ferðinni í bæði skiptin. Þriðji sigur Stokkseyrar í sumar staðreynd og lokatölur 3-1.

Hamar vann öruggan 4-1 sigur á botnliði Smára á heimavelli í Hveragerði. Kristinn Ásgeir Þorbergsson var í miklum ham í fyrri hálfleiknum og skoraði þrennu á rúmum tuttugu mínútum. Staðan var 3-0 í hálfleik. Gestirnir minnkuðu muninn í upphafi seinni hálfleiks en Atli Þór Jónasson bætti strax við fjórða marki Hamars og það reyndist síðasta mark leiksins.

Í sama riðli heimsótti KFR Ými í Kópavoginn. Ýmir skoraði þrjú mörk í fyrri hálfleik og bætti fjórum við í seinni hálfleik, án þess að Rangæingar næðu að svara fyrir sig. Lokatölur 7-0.

Staðan í D-riðlinum er þannig að Hamar er í 2. sæti með 26 stig, í hörkukeppni við GG um sæti í úrslitakeppninni. KFR er og verður í 4. sæti riðilsins með 16 stig þegar tvær umferðir eru eftir. Í B-riðlinum er Stokkseyri áfram í 7. sæti, nú með 11 stig.

Fyrri greinHlynur lék vel á öðrum keppnisdegi
Næsta greinHlakka til framhaldsins í heimabænum