Stokkseyri tapaði fyrir KFS í 4. deild karla í knattspyrnu í dag og á Eskifirði tapaði KFR fyrir Fjarðarbyggð í 3. deildinni.
Leikur Stokkseyrar og KFS var markalaus lengst af en hlutirnir fóru að gerast undir lokin. Á 74. mínútu skoraði Kjartan Þór Helgason sjálfsmark og kom Eyjamönnum yfir og Selfyssingurinn Guðmundur Geir Jónsson bætti öðru marki við fyrir Eyjaliðið á 85. mínútu. Kjartan klóraði í bakkann í uppbótartíma, með því að setja boltann í rétt mark, en lokatölur urðu 1-2.
KFR sótti Fjarðarbyggð heim þar sem staðan var 0-0 í hálfleik en strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks komust heimamenn yfir. Þeir bættu svo tveimur mörkum við um miðjan síðari hálfleik og fjórða markið leit dagsins ljós á 90. mínútu.
Stokkseyri er á botni A-riðils 4. deildar með 4 stig en KFR er í 6. sæti 3. deildarinnar með 13 stig.