Stokkseyri vann öruggan sigur á Uppsveitum í Suðurlandsslag kvöldsins í 4. deild karla í knattspyrnu. Lokatölur á Stokkseyrarvelli urðu 4-1.
Leikmenn Uppsveita munu naga sig í handarbökin fram eftir næstu viku því þeir voru mun ákveðnari í fyrri hálfleik en fóru illa með færin sín. Þeir komust yfir eftir fimmtán mínútna leik. Pétur Geir Ómarsson kom boltanum þá í netið eftir frábæran undirbúning Mána Snæs Benediktssonar. Uppsveitir fengu fleiri færi í kjölfarið en inn vildi boltinn ekki. Stokkseyringar áttu hins vegar síðasta orðið í fyrri hálfleik þegar Örvar Hugason jafnaði metin úr vítaspyrnu og staðan var 1-1 í hálfleik.
Stokkseyringar voru greinilega spenntir fyrir Bryggjuhátíðinni og vildu klára leikinn hratt og þeim tókst að afgreiða hann á stuttum tíma í upphafi seinni hálfleiks. Þar leituðu þeir í smiðju Jóns Jökuls Þráinssonar, sem skallaði aukaspyrnu Örvars í netið og skömmu síðar bætti Alexander Hrafnkelsson þriðja markinu við. Uppsveitamenn hengdu haus og var refsað fyrir slæm mistök í öftustu línu með fjórða marki Stokkseyrar og þar var að verki Þórhallur Aron Másson.
Þar með var leikurinn úti þó að nægur tími væri eftir. Uppsveitamenn áttu erfitt með að rífa sig upp og Hlynur Kárason fór á kostum í marki Stokkseyrar, sem fór virkilega í skapið á gestunum. Sálfræði 103 hjá Hlyni.
Stokkseyringar lyftu sér upp í 4. sæti B-riðilsins með sigrinum og hafa nú 9 stig. Uppsveitir sitja í 7. sæti með 5 stig.