Það var stórleikur á Stokkseyrarvelli í dag þegar Stokkseyringar tóku á móti nágrönnum sínum úr Uppsveitum. Úrslitin voru nokkuð óvænt en Stokkseyri valtaði yfir gesti sína.
Stokkseyringar byrjuðu betur og Hafþór Berg Ríkharðsson og Sindri Þór Arnarson skoruðu sitthvort markið áður en korter var liðið af leiknum. Þá tóku Uppsveitamenn við sér og sóttu stíft að marki Stokkseyringa en fengu þriðja markið í andlitið á 30. mínútu og þar var Sindri Þór aftur á ferðinni. Hann kórónaði svo þrennu sína á 38. mínútu með snyrtilegu marki úr skyndisókn eftir að Uppsveitamenn höfðu pressað stíft að marki Stokkseyrar.
Staðan var 4-0 í hálfleik og seinni hálfleikurinn var mun rólegri. Hafþór Berg bætti fimmta marki Stokkseyrar við á upphafsmínútum seinni hálfleiks og þar við sat. Stokkseyringar héldu fengnum hlut með sitt magnaða miðvarðapar, Arilíus Marteinsson og Gunnar Sigfús Jónsson og fyrir aftan þá stóð Hlynur Kárason vaktina af öryggi, enda elskar hann að halda lakinu hreinu. Það gekk eftir í dag og lokatölurnar urðu 5-0.
Staðan í B-riðlinum er þannig að Uppsveitir eru í 6. sæti með 10 stig og Stokkseyri er í 7. sætinu með 9 stig en á leik til góða.