Stokkseyringar steinlágu þegar þeir fengu Vængi Júpiters í heimsókn í B-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur urðu 1-7.
Atli Már Jónsson kom Stokkseyringum yfir strax á 5. mínútu leiksins en gestirnir jöfnuðu rúmum tíu mínútum síðar. Eftir það var leikurinn í járnum en gestirnir bættu svo við tveimur mörkum undir lok fyrri hálfleiks og leiddu í leikhléinu, 1-3.
Stokkseyringar komust ekki á flug í síðari hálfleik og gekk illa að spila boltanum. Gestirnir höfðu fín tök á leiknum og röðuðu svo inn mörkum á síðustu tuttugu mínútunum. Vængirnir skoruðu fjögur mörk á sextán mínútna kafla undir lokin og hófu sig til flugs með þrjú stig í farteskinu.
Stokkseyri er í 5. sæti B-riðilsins með fjögur stig að loknum fimm leikjum.