Mótanefnd Knattspyrnusambands Íslands samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að heimila Stokkseyri að taka þátt á Íslandsmótinu í 5. deild karla.
Stokkseyringar höfðu áður hætt þátttöku bæði á Íslandsmótinu og í Mjólkurbikarnum en félagið óskaði nýlega eftir því að koma aftur inn í Íslandsmótið og var sú beiðni samþykkt. Stokkseyri dróst á móti Selfossi í 1. umferð Mjólkurbikarsins en Selfoss komst auðveldlega í 2. umferðina eftir að Stokkseyri dró sig í hlé.
Stokkseyri stimplar sig nú aftur inn af krafti og hefur Óskar Valberg Ariliusson verið ráðinn þjálfari meistaraflokks. Óskar er sannur Stokkseyringur, sem þjálfaði liðið á árunum 2014-16 og spilaði með félaginu á yngri árum. Óskar hefur strax hafið störf og nú hefst stysta undirbúningstímabil í heimi en fyrsti leikur Stokkseyrar á Íslandsmótinu er þann 15. maí.
Stokkseyri er í áhugaverðum riðli í 5. deildinni en meðal andstæðinga þeirra eru KFR og Uppsveitir.
Í tilkynningu frá Stokkseyri segir að miklar líkur séu á að sterkur hópur meistaraflokks styrkist enn frekar á næstu vikum og eins og oft áður verði einstakur stemmari á Stokkseyrarvelli í sumar.