Stokkseyringar sterkir heima

Pétur Smári Sigurðsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyri vann gríðarlega mikilvægan sigur á Herði frá Ísafirði í 5. deild karla í knattspyrnu í dag en liðin mættust á Stokkseyrarvelli.

Leikurinn var markalaus allt fram á 86. mínútu. Stokkseyringum hafði ekki gengið að þenja netmöskva gestanna en áttu gamla brýnið Hjalta Jóhannesson í bakhöndinni á bekknum.

Hjalti kom inná á 85. mínútu og það var ekki að sökum að spyrja, nokkrum sekúndum seinna hafði Pétur Smári Sigurðsson skallað boltann glæsilega í netið, utarlega í vítateig Harðar, eftir frábæra sendingu frá Arilíusi Óskarssyni.

Þetta reyndist sigurmark leiksins og Stokkseyringar hefndu þar með fyrir slæmt tap á Ísafirði í fyrri umferðinni og lyftu sér upp fyrir Hörð á töflunni. Stokkseyri er nú í 4. sæti B-riðilsins með 16 stig.

Þess má geta að eftir leikinn í dag bætist Hjalti Jó í fámennan hóp leikmanna sem Hafa spilað í öllum deildum Íslandsmótsins.

Fyrri greinSlasaður knapi fluttur með þyrlu á sjúkrahús
Næsta greinTuttugu farþegar selfluttir í Landmannalaugar