Stokkseyri beið lægri hlut þegar Skínandi kom í heimsókn á Selfossvöll í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur urðu 1-4.
Þórhallur Aron Másson kom Stokkseyri yfir strax á 5. mínútu þegar hann náði að pota knettinum yfir marklínuna eftir hornspyrnu. Stokkseyringar héldu forskotinu fram í fyrri hálfleikinn en Skínandi náði að jafna fyrir leikhlé og staðan var 1-1 í hálfleik.
Skínandamenn voru sterkari í síðari hálfleik og sóknarleikur Stokkseyringa var ansi bitlítill. Á 60. mínútu komst Skínandi í 1-2 og fimm mínútum síðar bættu Garðbæingar þriðja markinu við úr vítaspyrnu. Fjórða mark Skínanda kom með skalla eftir hornspyrnu og lokatölur urðu 1-4 í éljaganginum á Selfossi.
Stokkseyri hefur lokið keppni í deildarbikarnum þetta vorið en liðið er í 4. sæti riðilsins með 3 stig. Skínandi tryggði sér hins vegar sigurinn í riðlinum með sigrinum í kvöld.