Selfyssingar töpuðu 1-3 fyrir botnliði Tindastóls í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í dag en liðin mættust á Selfossi.
Tindastóll er að berjast fyrir lífi sínu í deildinni á meðan Selfyssingar hafa að litlu að keppa. Það sást í fyrri hálfleik þar sem gestirnir sneru bökum saman og voru mun ákveðnari. Þeim tókst að komast yfir á 24. mínútu með marki uppúr hornspyrnu en sóknarleikur Selfyssinga gekk illa í fyrri hálfleiknum.
Staðan var 0-1 í hálfleik en Selfyssingar sóttu í sig veðrið í seinni hálfleiknum, án þess þó að takast að skapa mörg færi. Lokakafli leiksins var mjög fjörugur. TIndastóll komst í 0-2 á 82. mínútu með marki úr skyndisókn og þremur mínútum síðar minnkaði Selfoss muninn í 1-2 með sjálfsmarki Stólanna, eftir góðan undirbúning Önnu Maríu Friðgeirsdóttur.
Það voru hins vegar gestirnir sem áttu síðasta orðið og var þriðja markið nánast eins og annað markið, góð sending innfyrir framliggjandi vörn Selfoss.
Eftir leiki dagsins er Selfoss í 4. sæti deildarinnar með 25 stig og mætir Íslandsmeisturum Vals á útivelli í lokaumferðinni á föstudagskvöld.