Stolt að eiga strák í landsliðinu

Ragnhildur Sigurðardóttir er handboltamamma af líf og sál. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Ragnhildur Sigurðardóttir, heilsudrottning og handboltamamma á Selfossi, er orðin mjög spennt fyrir HM í handbolta. Fyrsti leikur Íslands er í kvöld en Selfyssingar eiga fimm fulltrúa í landsliðinu.

Landsliðsmaðurinn Elvar Örn Jónsson er sonur Ragnhildar, eða Göggu eins og hún er ávallt kölluð, og Jóns Birgis Guðmundssonar, sem er einn af sjúkraþjálfurum landsliðsins og má því segja að Gagga sé með hjartað sitt í liðinu.

„Ég er alltaf jafn spennt fyrir stórmótunum. Það er um leið frábært hvernig strákarnir gleðja marga sem bíða eftir þessum mótum í janúar, sem getur stundum verið ansi langur mánuður,“ segir Gagga í samtali við sunnlenska.is.

Allur Selfossbær er með
„Hér heima og erlendis koma margir saman, gleðjast, spennast upp, hlakka til og lifa sig vel inn í leikina. Handboltinn og strákarnir okkar þjappa alltaf þjóðinni saman. Það er alveg sama hver á í hlut, hvort það eru ömmur og afar eða litlu börnin. Við hrífumst öll með, fögnum saman og tölum um lítið annað en handbolta í janúar.“

„Skólar hér á Selfossi setja upp plaköt af Selfoss strákunum og landsliðinu, þannig að allur bærinn og Ísland er með. Þegar mótið byrjar þá líða dagarnir mjög hratt, þetta eru stundir sem allir bíða eftir með hjartanu. Fyrr en varir er febrúar kominn.“

Gagga ásamt Jónda, Elvari og Sonju dóttur sinni á EM í fyrra. Ljósmynd/Úr einkasafni

Fær leyfi hjá börnunum til að vera hávær í stúkunni
Gagga fer alla leið þegar kemur að því að klæða sig upp fyrir mótin en myndir af henni í kjól í fánalitunum hafa vakið athygli fjölmiðla og annarra.

„Þegar mótin nálgast þá finn ég til dótið mitt, kjólinn, landsliðstreyjuna og allt hitt. Þegar ég fer inn í þetta þá fer ég alla leið og passa að hafa líka gaman, njóta hverrar mínútu og leyfa innra barninu að njóta sín.“

„Sumir kalla þetta kannski að vera fyrir athyglina. Ég kalla þetta að leyfa sér að njóta og vera með, því við erum öll einstök. Hvað varðar mig og börnin mín í íþróttum gegnum tíðina þá hef ég nú alltaf fengið leyfi hjá þeim að vera svolítið virk og hávær í stúkunni. Þau brosa bara að mömmu sinni þegar hún hefur sem hæst,“ segir Gagga og hlær.

Gagga fer alla leið í að styðja landsliðið. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Heyrist alltaf vel í Íslendingunum
Gagga segir að mikil samheldni einkenni hópinn sem fylgir strákunum út á stórmót. „Margir leggja leið sína á mótin og það myndast eins konar stórfjölskylda, sem gaman er að vera hluti af. Fólk kemur saman og það er farið yfir sönginn og hver syngur með sinni röddu. Síðan er rölt af stað á leikina. Það skapar mikla liðsheild, enda heyrist alltaf mjög vel í Íslendingunum.“

„Það er svo magnað að upplifa þessa orku. Ég held að ég hafi farið á mitt fyrsta stórmót í handbolta 2017 og ég hlakka alltaf jafn mikið til. Núna er ég að fara á milliriðilinn sem hefst 21. janúar.“

Upplifun sem kemur frá innsta kjarna
Gagga er stolt af sínum dreng í liðinu og lifir hún sig mikið inn í leikina. „Að fylgjast með landsliðinu skapar mikinn kraft og að eiga strák í landsliðinu fylgir mikið stolt og það gleður mitt hjarta. Það er upplifun sem kemur frá innsta kjarna og hreyfir vel við mér, sem erfitt er að útskýra. Ég upplifi líka rosa mikið keppnisskap og verð rosalega spennt.“

Gagga fagnar með Elvari þegar Selfoss fór upp um deild árið 2016. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Ég verð smá stressuð fyrir leikinn. Ég man þegar ég var að keppa sjálf þá kom smá fiðringur eða stress sem skerpti mann meira. Það var eins og að öll skilningarvitin væru virkari og maður tók meira eftir umhverfinu og íþróttinni sem maður var að keppa í. Þetta er stress sem styrkir mann.“

„Á pöllunum þá eru smá læti í mér þar sem ég lifi mig mjög vel inn í leikina. Stend alltaf upp fyrir hvert mark, sem liðið skorar, til að sýna virðingu og hvatningu um leið.“

Góðir liðsfélagar
Gagga er ánægð með landsliðið í handbolta. „Íslenska liðið er hópur af úrvals, einbeittum og afreksmiðuðum einstaklingum og ég samgleðst þeim með það. Liðsheildin er sterk og trúi ég því að þeir komi til með að sýna það í leikjunum, að þeir mæti strax til leiks og vaxi ásmegin.“

„Það er mjög gaman að horfa á þetta landslið. Þeir gera alltaf sitt besta og setja miklar kröfur á sig. Það er líka gaman að heyra hvað þeir eru einbeittir og góðir liðsfélagar, það skilar sér alltaf inn í leikinn.“

Gagga með húfu sem er hönnuð af Stínu Gísladóttir á Blönduósi og var sérstaklega prjónuð fyrir hana. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Bið alltaf fyrir strákunum
Gagga hefur menntað sig í hinum ýmsum fræðum sem tengjast líkamlegri og andlegri heilsu. Hún er meðal annars menntaður jógakennari og nýtir hún þekkinguna sína úr þeim fræðum til að koma sér í gírinn fyrir leikina.

„Ég þarf alltaf að hafa góðan tíma fyrir leikina og þarf helst fara út í náttúruna og fer í smá hugleiðslu um leið. Ég bið alltaf fyrir strákunum og landsliðinu í heild sinni og annað. Veit ekki hvort það sé hjátrú eða bara hluti af því að koma sér í keppnisgírinn – koma sér í stemmninguna og keppnisorkuna.“

Í góðum höndum eiginmannsins
Sem fyrr segir er eiginmaður Göggu einn af sjúkraþjálfurum landsliðsins og er hún ekki síður stolt af sínum manni en syninum. „Jóndi er „all in“ allan sólarhringinn og strákarnir eru í mjög góðum höndum hjá honum.“

„Hann fer líka í ákveðinn gír og er mjög svo einbeittur í sinni vinnu enda með mikið keppnisskap líka eins og fleiri í fjölskyldunni. Ég vona bara að hann fái ekki gult spjald í þetta sinn. Svo má ekki gleyma þjálfarateyminu, liðstjóranum og öllum sem eru í umgjörðinni í kringum liðið sem allir eru að leggja sig fram.“

Eðalhjónin Gagga og Jóndi. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvetur fólk til senda góða orku á strákana
„Það er ótrúlega mikill styrkur sem kemur með handboltastrákunum þegar þeir fara á stórmót. Leyfum okkur að vera með alla leið. Mig langar að nota tækifærið og hvetja fólk til að senda góða orku á strákana því þeir finna vel fyrir stuðningnum heima á Íslandi og annar staðar. Að vera einbeittur að horfa á leikina skilar sér alla leið til strákanna. Þinn stuðningur skiptir öllu máli,“ segir Gagga að lokum.

Leikmenn Selfoss á HM 2025 (f.v.) Janus Daði Smárason, Bjarki Már Elísson, Elvar Örn Jónsson, Haukur Þrastarson og Teitur Örn Einarsson. Ljósmyndir: HSÍ/Mummi Lú Samsetning/sunnlenska.is
Fyrri greinÖlfusforir eins og hafsjór yfir að líta
Næsta greinJanus Daði maður leiksins