Selfoss vann frábæran sigur á FH í Olísdeild karla í handbolta í kvöld, 25-24 og lyfta þeir vínrauðu sér þar með upp í 4. sæti deildarinnar með 5 stig.
„Mjög góður varnarleikur í kvöld og góðir markmenn er það sem einkenndi þennan leik. Þetta var gríðarlega erfiður leikur. Við gefum full mikið eftir þegar við erum komnir fimm mörkum yfir. Ég hefði viljað sækja sjötta og sjöunda markið í stað þess að fara að verja forskotið. En ég er gríðarlega stoltur af því hvernig strákarnir kláruðu leikinn,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss, eftir enn einn spennuleikinn á heimavelli í Iðu.
Selfyssingar byrjuðu betur í leiknum og þegar rúmar 12 mínútur voru liðnar höfðu þeir tækifæri til þess að komast þremur mörkum yfir. Það tókst ekki heldur náði FH 4-1 kafla og sneri leiknum sér í vil. Staðan var 13-13 í leikhléi.
Seinni hálfleikurinn var mjög skrautlegur. Selfoss byrjaði á mögnuðu 5-0 áhlaupi sem breytti stöðunni í 18-13. FH kom sér hægt og bítandi aftur inn í leikinn og á síðustu fimmtán mínútunum spiluðu þeir fantagóða vörn. FH jafnaði 22-22 þegar átta mínútur voru eftir og lokakaflinn var hrikalega spennandi.
Varnarleikurinn var í hávegum hafður og Vilius Rasimas, markvörður Selfoss, var besti maður vallarins í kvöld. Þannig mistókst FH þrisvar sinnum að jafna metin á lokamínútunni og Selfyssingar fögnuðu virkilega sætum sigri.
Hergeir Grímsson skoraði 6/1 mörk fyrir Selfoss í kvöld og Guðmundur Hólmar Helgason 6. Atli Ævar Ingólfsson skoraði 4, Hannes Höskuldsson og Nökkvi Dan Elliðason 3, Einar Sverrisson 2 og Alexander Egan 1.
Vilius Rasimas varði 18 skot í marki Selfoss, þar af þrjú vítaskot.