Það voru blendnar tilfinningar sem bærðust með Adólf Bragasyni, þjálfara Árborgar, eftir frábæran leik gegn Tindastóli sem þó dugði ekki til sigurs í einvíginu um sæti í 2. deild.
„Við stóðum okkur rosalega vel í kvöld. Það var mikið hjarta í þessu og við vorum staðráðnir í að koma hingað og vinna þennan leik. Síðasta hálftímann erum við algjörlega inni í þessu og það er bara spurning hvoru megin það fellur. Við reyndum og reyndum en því miður náðum við ekki fjórða markinu,“ sagði Adólf í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Við töpuðum þessu einvígi í fyrri leiknum þar sem við fengum þrjú mörk í andlitið. Það var gríðarlega erfitt að koma til baka eftir það en við höfðum trú á þessu allan tímann og það sást greinilega á liðinu í kvöld,“ sagði þjálfarinn sem er þrátt fyrir allt ánægður með sumarið.
„Ég er ótrúlega stoltur af okkar leik í dag og sumarið er búið að vera frábært. Þetta hefur einkennst af samheldni og gleði fyrst og fremst. Það hefur mikið af yngri strákum verið að koma inn í hópinn og þeir blandast vel við þá eldri sem hafa borið þetta uppi síðustu ár. Þannig að ég er stoltur en það munaði ekki miklu hjá okkur og auðvitað er sárt að hafa ekki klárað þetta,“ sagði Adólf að lokum.