Stöngin út á Akureyri

Gonzalo Zamorano. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði mikilvægum stigum í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld þegar liðið heimsótti Þór Akureyri í hörkuleik í kvöld.

Þórsarar komust yfir á 7. mínútu með skallamarki Alexanders Þorlákssonar en í kjölfarið voru Selfyssingar mikið með boltann og leituðu leiða fram á við. Mörkin létu hins vegar á sér standa, þó að bæði lið hafi komist í álitlegar stöður.

Staðan var 1-0 í hálfleik en aðeins voru nokkrar sekúndur liðnar af seinni hálfleik áður en Alexander var búinn að skalla boltann aftur í netið og koma Þór í 2-0.

Selfyssingar létu ekki hugfallast og á 63. mínútu minnkaði Gonzalo Zamorano muninn þegar hann fékk góða sendingu innfyrir frá Guðmundi Tyrfingssyni. Zamorano fékk gott færi tíu mínútum síðar og á 82. mínútu fengu Selfyssingar svo vítaspyrnu þegar Guðmundur var felldur í teignum. Hann fór sjálfur á punktinn en setti boltann í stöngina. Selfoss náði ekki að skapa sér neitt að ráði í lokin og Þór fagnaði 2-1 sigri og fór upp fyrir Selfoss á töflunni.

Þór er nú í 3. sæti með 12 stig en Selfoss seig niður í 6. sætið eftir tapið í kvöld, með 10 stig.

Fyrri greinLengjudeildarliðið sló Selfoss úr bikarnum
Næsta greinÁrborg aftur á toppinn eftir Suðurlandsslaginn