Stór þrjú stig til Selfyssinga

Selfoss vann gríðarlega mikilvægan 0-3 sigur á HK/Víkingi á útivelli í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Liðin eru að berjast á neðri hluta stigatöflunnar en með sigrinum náðu Selfyssingar að rífa sig frá þremur neðstu liðunum og skildu HK/Víking eftir í erfiðri stöðu.

HK/Víkingur átti góðar sóknir í upphafi leiks en þegar leið á fyrri hálfleikinn voru Selfyssingar sterkari og það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik. Leikurinn var þó lengst af markalaus en úrslitin réðust á síðustu tíu mínútunum.

Á 79. mínútu fékk Magdalena Reimus stungusendingu innfyrir vörn HK/Víkings og kláraði sitt færi af mikilli yfirvegun. Tveimur mínútum síðar átti Magdalena fyrirgjöf á kollinn á Kristrúnu Rut Antonsdóttur sem stangaði boltann í netið.

Selfyssingar voru ekki hættir því á lokamínútunni tryggði varamaðurinn Alexis Kiehl þeim 0-3 sigur þegar hún lék á bakvörð heimakvenna og lét vaða yfir markvörðinn í þverslána og inn.

Selfoss hefur nú 8 stig í 6. sæti deildarinnar en HK/Víkingur er í 8. sætinu með 4 stig.

Fyrri greinÖrmagna göngumaður kallaði eftir hjálp
Næsta greinBjarnveig og Írena hlutu afreksstyrki