„Þetta er reyndar mjög skrítin tilfinning. Ég bjóst ekki við því að ég væri að fara að lyfta bikar hér í kvöld úr því að við vorum ekki með leikinn.“
Þetta sagði Íris Ásgeirsdóttir, fyrirliði kvennaliðs Hamars, eftir að liðið tryggði sér deildarmeistaratitilinn í Iceland Express-deild kvenna í körfubolta í kvöld.
„Við vorum langt frá okkar besta í fyrri hálfleik og þær náðu stóru áhlaupi á okkur í 2. leikhluta sem við náðum ekki að jafna okkur á. Við fórum yfir málin í hálfleik og löguðum okkar leik en töpuðum þrátt fyrir það. Ég átti alls ekki von á því að það yrði bikarfögnuður eftir þessa frammistöðu,“ sagði Íris í samtali við sunnlenska.is.
„Þegar ég skoðaði leikina sem voru eftir þá sá maður það fyrir að það væri ekki hægt að treysta á úrslit úr öðrum leikjum. Við þyrftum bara að treysta á okkur, annars væri enginn bikar. En þetta voru frábær úrslit hjá Haukunum í kvöld,“ sagði Íris og bætti við að bikarinn væri langþráður.
„Loksins. Ég er búin að bíða svo lengi eftir þessu og að fá að lyfta bikar hér á heimavelli fyrir framan okkar fólk fyrir nánast fullu húsi er alveg frábært. Það er svo gaman að vinna þetta fyrir mitt félag,“ segir fyrirliðinn sem er greinilega með Hamarshjarta úr gulli.
„Þetta er stór titill fyrir Hveragerði og Suðurland allt. En nú er bara Íslandsmeistaratitillinn eftir. Við rétt misstum af honum í fyrra og nú ætlum við að taka hann. Það er flott stemmning í hópnum og við erum staðráðnar í að vinna þann stóra,“ sagði Íris að lokum.