Hamar tapaði 104-92 þegar liðið sótti Skallagrím heim í Fyrirtækjabikar karla í körfubolta í gærkvöldi.
Heimamenn byrjuðu betur og leiddu 29-16 að loknum 1. leikhluta en í hálfleik var munurinn orðinn 24 stig, 60-36. Hamar kom til baka í 3. leikhluta og minnkaði muninn í 11 stig, 79-68. Sá munur hélst hinsvegar nokkurnvegin til leiksloka þar sem jafnræði var með liðunum í síðasta fjórðungnum.
Danero Thomas var stigahæstur hjá Hamri með 34 stig og 10 fráköst en Bjartmar Halldórsson var maður leiksins hjá Hvergerðingum með 16 stig, 16 stoðsendingar og 8 stolna bolta. Bragi Bjarnason skoraði 15 stig, Aron Freyr Eyjólfsson 10, Ingvi Guðmundsson og Stefán Halldórsson 6, Mikael Kristjánsson 3 og Emil Þorvaldsson 2.
Grétar Ingi Erlendsson kom af bekknum hjá Skallagrími, spilaði rúmar 19 mínútur og skoraði 20 stig, en hann var snemma kominn í villuvandræði.