Þorlákshafnar-Þórsarar unnu sinn fyrsta sigur í Iceland Express deild karla í körfubolta í vetur þegar þeir skelltu ÍR á útivelli, 92-101.
Þórsarar leiddu framan af fyrsta leikhluta en ÍR-ingar sneru taflinu við og höfðu forystuna að tíu mínútum liðnum, 28-24.
ÍR komst í 30-24 á fyrstu mínútu 2. leikhluta en þá svöruðu Þórsarar með sextán stigum í röð á skömmum tíma og staðan var orðin 30-40. ÍR-ingar vöknuðu þá upp við vondan draum og minnkuðu muninn niður í fimm stig, 50-55, og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Þórsarar voru sterkari í upphafi seinni hálfleiks og þeir juku forskot sitt jafnt og þétt en staðan var 71-87 að þriðja leikhluta loknum.
Heimamenn svöruðu fyrir sig í síðasta fjórðungnum og náðu að minnka muninn niður í sex stig, 88-94, þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir af leiknum en nær komust þeir ekki. Þórsarar sigldu sigrinum örugglega heim og lokatölur voru 92-101.
Darrin Govens átti stórleik fyrir Þór, skoraði 40 stig, tók 8 fráköst og sendi 6 stoðsendingar. Guðmundur Jónsson skoraði 18 stig, Michael Ringgold skoraði einnig 18 stig og tók 14 fráköst, Grétar Ingi Erlendsson skoraði 11 stig, Marko Latinovic 8 og Darri Hilmarsson 6.