Dregið hefur verið í fyrstu umferðir bikarkeppni karla í knattspyrnu og verða þar margar áhugaverðar viðureignir. Stærsti leikur 1. umferðarinnar, og einn stærsti íþróttaviðburður aprílmánaðar, verður leikur Selfoss og Stokkseyrar.
Selfoss og Stokkseyri hafa aldrei mæst í leik á vegum KSÍ áður og spennan er því eflaust mikil í herbúðum beggja liða. Selfoss leikur í 2. deild Íslandsmótsins en Stokkseyri í 5. deild. Meirihluti leikmannahóps Stokkseyrar fór í gegnum yngri flokka Selfoss og bæði liðin eiga sameiginlega goðsögn; Arilíus Marteinsson sem er enn með takkaskóna reimaða á sig.
Fyrsta umferðin fer fram 4.-6. apríl en leiktímar og leikvellir eru óstaðfestir þar sem grasvellir liðanna verða væntanlega ekki tilbúini í byrjun apríl. Aðrir leikir sunnlensku liðanna í þessari umferð eru Skallagrímur – Ægir, KFR – KFK, Hamar – Hvíti riddarinn, Árborg – Reynir Hellissandi og Kári – Uppsveitir.
Í 2. umferð gætu áhugaverðir leikir litið dagsins ljós, til að mynda gætu Selfoss eða Stokkseyri mætt Uppsveitum og Hamarsmenn gætu fengið Grindvíkinga í heimsókn.
Í bikarkeppni kvenna verður 1. deildar slagur þar sem Selfoss mætir ÍA. Sigurliðið mun mæta Sindra eða Fjölni í 2. umferð.