Stórleikur í Gjánni í kvöld

Chris Caird er nýr þjálfari Selfossliðsins sem áður lék undir merkjum FSU. Ljósmynd/Aðsend

Körfuboltinn er byrjaður að rúlla og í kvöld verður stórleikur í 1. umferð 1. deildar karla þegar Selfoss og Hamar mætast á Selfossi.

Selfyssingar eru komnir með nýjan heimavöll í Vallaskóla, sem nefndur hefur verið Gjáin. Það má ekki búast við mikilli gestrisni þar í kvöld, innan vallar í það minnsta, þegar Hvergerðingar mæta til leiks kl. 19:15.

Töluverðar breytingar hafa orðið á bæði Selfossliðinu og Hamri frá því í fyrra, margir nýir leikmenn og bæði lið hafa auk þess ráðið nýja þjálfara. Mate Dalmay stýrir nú Hamri eftir að hafa gert gott mót með Gnúpverjum í fyrra en Chris Caird tók við í vor sem þjálfari Selfyssinga.

Liðunum er spáð ólíku gengi í árlegri spá formanna, þjálfara og fyrirliða liðanna í deildinni. Hamri er spáð 4. sæti en búist er við Selfyssingum neðarlega á töflunni, í 7. sæti af átta liðum í deildinni.

Fyrri greinSindra boðið til keppni á Ítalíu
Næsta greinSamið um veðurstöð á Selfossi