Stórleikur í Vallaskóla í kvöld

Selfoss tekur á móti ÍBV í 1. deild karla í handbolta í kvöld kl. 19:30 í Vallaskóla. Það er alltaf von á mikilli baráttu þegar þessi lið keppa um montréttinn á Suðurlandi.

Bæði liðin eru í toppbaráttu deildarinnar, Selfoss með tíu stig í 2. sæti og ÍBV einu stigi á eftir í 4. sæti. Eyjamenn hafa sigrað í fjórum leikjum í vetur en þjálfarar liðsins eru þeir Arnar Pétursson og Erlingur Richardsson, fyrrum leikmaður Selfoss. Nemanja Malovic hefur farið á kostum fyrir ÍBV í upphafi tímabilsins og skorað 46 mörk en hann er lang markahæstur í deildinni. ÍBV hefur farið mikinn í sókninni í vetur og ljóst að verkefnið verður verðugt fyrir vörn og markverði Selfoss.

Úr herbúðum Selfoss bárust þær fréttir í gær að stórskyttan Atli Kristinsson er frá það sem eftir lifir tímabils með slitið krossband. Álagið verður því meira á skytturnar Einar Sverrisson og Matthías Halldórsson en Einar er markahæstur Selfyssinga með 34 mörk. Selfoss er það lið sem hefur fengið fæst mörk á sig í deildinni enda hefur vörnin heilt yfir verið góð og markverðirnir Helgi Hlynsson og Sverrir Andrésson hafa báðir staðið sig vel en Helgi er farinn að gera það að vana sínum að vera með yfir 50% markvörslu í leik.

Liðin mættust fjórum sinnum í fyrravetur og sitthvora tvo leikina.

Stuðningsmenn Selfoss eru hvattir til að mæta tímanlega og fjölmenna á pallana í Vallaskóla.

Upphitun á heimasíðu Selfoss: http://www.umfs.is/upphitun-fyrir-selfoss-ibv/

Fyrri greinUmferðartafir við Skarphól
Næsta greinStal fjarstýringu og heilsusafa