Stórleikur í Vallaskóla í kvöld

Það verður sannkallaður stórleikur í íþróttahúsi Vallaskóla á Selfossi í kvöld þegar Selfoss og ÍF Mílan mætast í fyrsta sinn í 1. deild karla í handbolta.

Leikurinn hefst kl. 19:30 og er heimaleikur Selfyssinga en óhætt er að segja að Mílumenn mæti óhræddir á þennan erfiða útivöll.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is er þetta í fyrsta sinn sem tvö lið frá Selfossi spila í sömu deild í sömu íþrótt og er óhætt að lofa því að áhorfendur eigi von á skemmtilegu kvöldi.

Bæði lið munu tefla fram sínu sterkasta liði utan hvað Örn Þrastarson er ekki í leikmannahópi Mílunnar vegna meiðsla. Hins vegar verður knattspyrnukempan og fyrrum leikmaður handknattleiksliðs Selfoss, Sævar Þór Gíslason, í hóp hjá Mílunni í kvöld.

Fyrir leikinn eru Selfyssingar í 5. sæti deildarinnar með 4 stig og Mílan í 6. sæti með 3 stig þannig að með sigri getur Mílan komist uppfyrir Selfyssinga á töflunni. Selfyssingar þurfa hins vegar nauðsynlega á sigri að halda til þess að stimpla sig inn í toppbaráttuna.

Áhorfendur eru hvattir til að fjölmenna en eftir leik mun Hótel Selfoss, nýjasti styrktaraðili Selfoss, bjóða upp á Happy Hour til miðnættis á Lounge barnum. Þar er tilvalið fyrir stuðningsmenn handboltans að hittast og fara yfir leik kvöldsins.

Fyrri grein„Mjög stoltur Selfyssingur“
Næsta greinFýlaveisla á fyrsta vetrardegi