Selfoss vann öruggan sigur á Álftanesi í C-deild Lengjubikars kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld.
Björgey Njála Andreudóttir kom Selfyssingum yfir á 15. mínútu en Álftanes jafnaði leikinn þremur mínútum síðar. Selfyssingar röðuðu hins vegar inn mörkum undir lok fyrri hálfleiks en mörk frá Olgu Lind Gestsdóttur, Guðmundu Brynju Óladóttur og Emblu Dís Gunnarsdóttur tryggðu þeim 4-1 forystu í hálfleik.
Selfoss gerði svo endanlega út um leikinn á fyrstu fimmtán mínútum seinni hálfleiks með mörkum frá Lovísu Einarsdóttur og Guðmundu Brynju og þar við sat, lokatölur 6-1.
Selfoss er á toppi riðils-1 með fullt hús stiga en Álftanes er í 2. sæti, einnig með 6 stig en hefur leikið einum leik meira.