Selfoss vann öruggan sigur á KA/Þór þegar liðin mættust í Olís-deild kvenna í handbolta á Akureyri í dag.
Selfoss hafði forystuna allan tímann, komst í 3-10 þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður en staðan í hálfleik var 6-14.
Munurinn varð mestur ellefu mörk í seinni hálfleik en í stöðunni 7-18 tóku heimakonur við sér og minnkuðu muninn í fimm mörk. Selfyssingar spýttu þá aftur í lófana og lokatölur urðu 14-22.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 7 mörk, Kristrún Steinþórsdóttir skoraði 5, Perla Ruth Albertsdóttir og Carmen Palamariu 4 og þær Þuríður Guðjónsdóttir og Kara Rún Árnadóttir skoruðu sitt markið hvor.
Áslaug Ýr Bragadóttir varði 13 skot í marki Selfoss og var með 50% markvörslu og Hildur Øder Einarsdóttir fór í markið síðustu fimm mínúturnar, varði 3 skot og var með 75% markvörslu.
UPPFÆRT 23:41