Selfoss vann stórsigur á FH í 1. umferð Ragnarsmóts kvenna í handbolta í Set-höllinni Iðu á Selfossi í kvöld.
Lokatölur urðu 41-20. Það varð snemma ljóst í hvað stefndi, Selfoss náði góðu forskoti í upphafi leiks og leiddi 19-10 í hálfleik.
Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 9 mörk, Sara Dröfn Rikharðsdóttir skoraði 5, Arna Kristín Einarsdóttir 4, Adela Jóhannsdóttir, Inga Dís Axelsdóttir, Katla María Magnúsdóttir, Inga Sól Björnsdóttir og Hulda Hrönn Bragadóttir 3 og þær Sylvía Bjarnadóttir, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir og markvörðurinn Cornelia Hermansson skoruðu 1 mark hver. Cornelia varði 3 skot að auki í marki Selfoss og Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 9 skot. Hildur Guðjónsdóttir skoraði 7 mörk fyrir FH.
Í hinum leik kvöldsins mættust ÍBV og Víkingur, þar sem ÍBV vann öruggan sigur, 27-16. Dagbjört Ýr Ólafsdóttir skoraði 8 mörk fyrir ÍBV og Hafdís Shizuka Iura skoraði 6 mörk fyrir Víking.
Næstu leikir Ragnarsmótsins eru á fimmtudagskvöld en þá mætast ÍBV og FH klukkan 18 og seinni leikur kvöldsins er viðureign Selfoss og Víkings klukkan 21:15.