Stórsigur gegn Haukum-U á Ragnarsmótinu

Álvaro Mallols sækir að marki Hauka-U í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann öruggan sigur á Haukum-U í 2. umferð Ragnarsmóts karla í handbolta í Set-höllinni Iðu í kvöld. Lokatölur urðu 37-20.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og staðan í leikhléi var 14-12. Í seinni hálfleiknum rifu Selfyssingar sig hins vegar frá HaUkunum og byggðu upp gott bil sem gestunum tókst alls ekki að brúa.

Guðjón Baldur Ómarsson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk, Sölvi Svavarsson skoraði 5, Álvaro Mallols, Hákon Garri Gestsson og Anton Breki Hjaltason 4, Patrekur Guðmundsson Öfjörð 3, Valdimar Örn Ingvarsson, Elvar Elí Hallgrímsson og Jónas Karl Gunnlaugsson 2 og þeir Árni Ísleifsson, Tryggvi Sigurberg Traustason, Guðmundur Steindórsson, Guðjón Óli Ósvaldsson og markvörðurinn Alexander Hrafnkelsson skoruðu allir 1 mark.

Alexander varði 6 skot í marki Selfoss og Jón Þórarinn Þorsteinsson 5.

Í hinum leik kvöldsins vann ÍBV öruggan sigur á Þór Ak, 39-30. Staðan var 21-14 í hálfleik. Andri Erlingsson skoraði 12 mörk fyrir ÍBV og Heiðmar Örn Björgvinsson 7 fyrir Þór.

Næstu leikir Ragnarsmótsins eru á morgun, fimmtudag, þegar Haukar-U og Grótta mætast kl. 18 og kl. 20:15 verður flautað til leiks í viðureign Gróttu og Víkings.

Fyrri greinSelfoss nálgast 1. deildina – Ægir siglir lygnan sjó
Næsta greinKristín Þórunn ráðin sóknarprestur í Skálholti