Stórsigur gegn Skallagrími

Hamar vann stórsigur á Skallagrími í 1. deild kvenna í körfubolta í kvöld. Lokatölur voru 69-39.

Hamar skoraði fyrstu níu stigin í leiknum og leiddi að loknum 1. leikhluta, 18-6. Hvergerðingar byrjuðu 2. leikhluta á 15-3 leikkafla og breyttu stöðunni í 33-9 en staðan var 37-15 í hálfleik.

Munurinn jókst enn frekar í síðari hálfleik en Borgnesingar bitu frá sér í síðasta leikhlutanum, án þess þó að sigur Hamars væri í nokkurri hættu.

Marín Laufey Davíðsdóttir var stigahæst hjá Hamri með 20 stig og 10 fráköst en næstar henni komu þær Jenný Harðardóttir, Álfhildur Þorsteinsdóttir og Íris Ásgeirsdóttir sem allar skoruðu níu stig.

Fyrri greinGuðmunda framlengdi um tvö ár
Næsta greinMargir þurftu frá að hverfa