Stórsigur Hamars í Grafarvoginum

Hamar vann öruggan sigur á B-liði Fjölnis þegar liðin mættust í hádeginu í dag í 1. deild kvenna í körfubolta. Lokatölur voru 59-85, Hamri í vil.

Það var mikill barningur í 1. leikhluta hjá báðum liðum en Hamarskonur voru að hitta vel fyrir utan og það tryggði þeim 7-17 forskot að loknum 1. leikhluta.

Fjölnir byrjaði á 12-0 áhlaupi í 2. leikhluta og komst yfir en orka Hamarskvenna fór að mestu í að bölva röngum dómum frá dómurunum. Hallgrímur Brynjólfsson, Hamarsþjálfari, tók leikhlé og hvatti sitt lið til að anda með nefinu og þær öndunaræfingar skiluðu árangri því Hamar tók öll völd á vellinum og leiddi 30-40 í hálfleik.

Hamarsliðið var svo mun sterkara í síðari hálfleik og gerði út um leikinn í upphafi 3. leikhluta með 0-14 leikkafla. Staðan var 43-66 að loknum 3. leikhluta og í upphafi síðasta fjórðungsins kom 0-10 áhlaup frá Hamri. Fjölnir klóraði í bakkann í lokin til þess að laga stöðuna örlítið en stórsigur Hamars var fyrir löngu í höfn.

Marín Laufey Davíðsdóttir skoraði 20 stig fyrir Hamar, Íris Ásgeirsdóttir 18, Álfhildur Þorsteinsdóttir og Dagný Lísa Davíðsdóttir 11, Jenný Harðardóttir 8, Freyja Fanndal 6, Katrín Eik Össurardóttir og Bjarney Sif Ægisdóttir 4 og Adda María Óttarsdóttir 2.

Fyrri greinTöpuðu stórt gegn Haukum
Næsta greinRéðst á tvo með hnefahöggum