Stórsigur hjá Árborg – Hamar tapaði

Árborg vann Ísbjörninn auðveldlega en Hamar tapaði fyrir Vatnaliljunum í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í kvöld.

Árborg heimsótti Ísbjörninn á gervigrasið við Kórinn í Kópavogi. Tómas Hassing kom Árborg yfir strax á 5. mínútu og tveimur mínútum síðar jók Tómas Kjartansson forystuna. Tómas Hassing skoraði sitt annað mark á 30. mínútu og staðan var 0-3 í hálfleik.

Hann var svo enn og aftur á ferðinni á 61. mínútu og kórónaði þrennuna, en skömmu áður hafði Ísbjörninn minnkað muninn með marki úr vítaspyrnu. Magnús Helgi Sigurðsson innsiglaði svo 1-5 sigur Árborgar með glæsilegu marki á 72. mínútu.

Eins og stendur er Árborg í 2. sæti í riðli-3 en næstu lið fyrir neðan eiga leik til góða.

Hamar og Vatnaliljurnar mættust á Selfossvelli og þar komust Vatnaliljurnar yfir á 9. mínútu leiksins. Bæði lið fengu góð færi í fyrri hálfleik en staðan var 0-1 í leikhléinu.

Arnar Þór Hafsteinsson jafnaði metin fyrir Hamar á 61. mínútu en Vatnaliljurnar komust yfir aftur sjö mínútum síðar. Þriðja mark Liljanna kom á 86. mínútu og lokatölur leiksins urðu 1-3.

Með sigri í leiknum hefði Hamar átt möguleika á toppsætinu og sæti í úrslitakeppninni en liðið er nú í 3. sæti riðilsins og eiga næstu lið fyrir neðan leik til góða á Hvergerðingana.

Fyrri greinKammerkór Rangæinga í Sögusetrinu
Næsta greinBlíðfinnur á svið á Sólheimum