Knattspyrnufélag Rangæinga vann 6-1 sigur á Grundarfirði í 3. deild karla í dag en á sama tíma tapaði Ægir 1-2 fyrir Sindra í 2. deildinni.
Rangæingar leiddu 3-0 í hálfleik gegn Grundarfirði eftir mörk frá Þórhalli Lárussyni og Jóhanni Guðmundssyni en fyrsta mark KFR var sjálfsmark gestanna.
Andri Freyr Björnsson kom KFR í 4-0 strax í upphafi síðari hálfleiks en Grundarfjörður minnkaði muninn í 4-1 fimm mínútum síðar. Helgi Ármannsson og Hjörvar Sigurðsson bættu svo við mörkum fyrir KFR undir lokin og lokatölurnar urðu 6-1.
Með sigrinum tryggðu Rangæingar áframhaldandi veru sína í deildinni en þeir eru í 5. sæti með 22 stig þegar tvær umferðir eru eftir.
Ægir fékk Sindra í heimsókn í 2. deildinni þar sem gestirnir komust yfir strax á 6. mínútu. Darko Matejic jafnaði metin á 28. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik. Bæði lið áttu ágæt færi í síðari hálfleik en gestirnir náðu að skora sigurmarkið þegar átta mínútur voru eftir af leiknum.
Ægismenn sigla nokkuð lygnan sjó í 8. sæti með 22 stig en þeir geta þó ekki andað of rólega því liðið er aðeins fimm stigum fyrir ofan fallsæti þegar þrjár umferðir eru eftir.