Rangæingar voru á skotskónum í dag þegar KFR heimsótti Kóngana á Leiknisvöll í riðli-4 í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu.
Grétar Ingi Guðmundsson kom KFR yfir strax á 3. mínútu og tveimur mínútum síðar skoraði Hjörvar Sigurðsson, 0-2. Kóngarnir minnkuðu muninn á 29. mínútu en tíu mínútum síðar kom Rúnar Smári Jensson KFR í 1-3 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Andri Freyr Björnsson bætti við tveimur mörkum fyrir KFR í seinni hálfleiknum áður en Guðmundur Gunnar Guðmundsson innsiglaði 1-6 sigur á 81. mínútu leiksins.
Þetta var síðasti leikur KFR í Lengjubikarnum. Liðið er sem stendur í 2. sæti riðilsins og eina von þess um að komast í úrslit er að topplið ÍH tapi með níu marka mun gegn Stál-úlfi í lokaumferðinni á morgun en ÍH og KFR hafa bæði 9 stig í riðlinum.